Einhverfusamtökin boða til fundar á Háaleitisbraut 13, 4. hæð, fimmtudaginn 14. nóv. Kl. 13-15. Óskum við eftir þátttöku fullorðinna einhverfra.
Tilgangur fundarins er að safna upplýsingum fyrir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um hvaða þjónustu stendur fullorðnum einhverfum til boða og hvernig hægt er að koma betur til móts við þarfir hópsins.
Á þessum fundi viljum við fá frásagnir einhverfra af þeirri þjónustu sem þau hafa nýtt sér og stendur fullorðnum einhverfum til boða, hjá félagsþjónustunni, Tryggingastofnun og fleiri þjónustuaðilum svo sem starfsendurhæfingum, vinnumálastofnun, heilsugæslu og heilbrigðiskerfinu, og almennt í samfélaginu, og einnig hvaða þjónustu þau myndu vilja sjá að auki. Þetta getur varðað aðgengismál t.d. að heilbrigðiskerfinu (að undanskildu geðheilbrigðiskerfinu þar sem sá fundur hefur farið fram) og félagsþjónustu en einnig varðar þetta t.d. aðgengi að vinnumarkaði, endurhæfingu, ferðaþjónustu eða almenningssamgöngum, félags- og menningarlífi.
Við viljum líka heyra frásagnir sem snúa að greiningaferli, fræðslu, ráðgjöf og stuðningi.
Þau sem treysta sér ekki til að koma geta sent fyrir sig fulltrúa eða sent okkur frásagnir á netfangið einhverfa@einhverfa.is Við getum komið þessum frásögnum áfram til ráðuneytisins og tekið út nöfn og aðrar persónugreinanlegar upplýsingar ef fólk vill.
Við teljum mikilvægt að einhverft fólk komi sjónarmiðum sínum á framfæri.
Hér er dæmi um hvað væri gott að fá upplýsingar um:
-Hvað / hvar er besta þjónusta sem þú hefur fengið ef þú hefur fengið þjónustu á annað borð?
-Hvernig birtast hindranir í þjónustu?
-Hvernig villtu sjá framtíðarþjónustu fyrir þig