Skyntruflanir hjá einhverfum

Jarþrúður Þórhallsdóttir 

Skyntruflanir hjá einhverfum og meðferð við þeim 
"Sensory Integration"

Inngangur

Á undanförnum árum hefur æ fleira fólk með einhverfu komið fram á sjónarsviðið, lýst líðan sinni og sagt okkur hinum frá því hvernig það er að vera einhverfur. Þessar lýsingar eru flestar á eina lund; mjög alvarlegar truflanir á skynjun, sem oft leiða til afar sérkennilegrar hegðunar.

Fræðimenn hafa undanfarna áratugi velt fyrir sér hinni "dularfullu" fötlun, einhverfu, og leitað skýringa. Því miður hafa skýringar vísindamannanna ekki allar verið jafn árangursríkar eins t. d. kenning Leo Kanners um "ísskápsmóðurina", sem átti að skapa einhverfu hjá barni sínu. Í dag vitum við betur og hafa þeir einhverfu einstaklingar sem náð hafa að tjá líðan sína þar lagt sitt að mörkum. Nú er vitað að heilastarfsemin er trufluð, að úrvinnsla og samhæfing skynboða er ekki sem skyldi, að truflanir á skynjun eru alvarlegar en ennþá er ekki vitað hvað veldur, þótt ýmsar tilgátur séu á lofti.

Þegar hegðun einhverfra er skoðuð út frá truflun skynjunar kemur í ljós að þeir hafa fundið sér rökrétta leið til þess að lifa af í heimi margvíslegra áreita. Þeir spila á taugakerfið, þeir festast í athöfnum, gera sama hlutinn eða endurtaka sömu hreyfinguna aftur og aftur (svokölluð sjálfsörvun). Þannig tekst þeim að útiloka óþægileg áreiti frá umhverfinu, sem þeir ná ekki að vinna úr. Þegar Temple Grandin, sem er einn fyrsti einhverfi einstaklingurinn til að skýra frá fötlun sinni á prenti, var stödd hér á landi árið 1992 í tilefni af útkomu bókar sinnar "Dyrnar opnast" var hún spurð hvort hún hefði einhvern tíma setið út í horni og ruggað sér. Svar hennar var já og hún spurði á móti: "Hvað mundir þú gera, ef þú hefðir fimm útvarpsrásir jafn hátt stilltar inni í höfðinu og sandpappír væri nuddað eftir fótleggjum þínum?"

Samhæfing skynsviða
"Sensory Integration"

Hvað er átt við með skyntruflunum, hvað er úrvinnsla skynboða? Hvað er "Sensory Integration?"
"Sensory Integration" (S.I.) hefur verið þýtt á ýmsa lund s.s. samhæfing skynsviða, samspil skynsviða og skynheildun. Ekkert af þessum þýðingum hefur þó festst í málinu og mun ég því oftast tala um S.I. í þessari grein.

S.I. má skilgreina sem hæfni miðtaugakerfisins til að samhæfa skilaboð frá fleiri en einu skynsviði í senn og gefa þeim gildi. Með öðrum orðum: Koma skipulagi á skynboðin svo þau komi að gagni.

Við sjáum, heyrum, finnum lykt og bragð, og í gegnum snertingu fáum við ýmsar upplýsingar s.s. um eiginleika hluta, hvort þeir eru mjúkir, harðir, blautir, þurrir o.s.frv. Við höfum sársaukaskyn og hita- og kuldaskyn. Við erum líka með stöðuskyn sem segir okkur í hvaða stöðu við erum og hvaða hreyfingu við gerum. Allar þessar skynjanir eru meðvitaðar. Auk þessa höfum við líka sérstakt skyn sem skynjar þyngdaraflið, okkar eigin þyngd og hvernig við erum staðsett í umhverfinu, t.d. hvort við snúumst dettum fram eða aftur o.s.frv. Einnig segir það okkur til um hraða hreyfinga, hvort hann eykst eða minnkar. Þessi síðastnefnda skynjun er ómeðvituð og er kölluð "vestibular" skynjun og er flókið jafnvægiskerfi í innra eyra.

Á hverju andartaki flæða óteljandi skynboð til heilans frá öllum þessum skynsviðum. Heilinn verður síðan að vinna úr og koma skipulagi á boðin til þess að við getum lært og hegðað okkur og hreyft á eðlilegan hátt. Þau skynboð sem við höfum ekkert við að gera eru síuð frá en þau sem skipta máli eru virkjuð.

Tökum sem dæmi að taka utan af appelsínu og borða hana. Við skynjum appelsínuna í gegnum augun, nefið, munninn, í gegnum húðina á höndunum, einnig í gegnum vöðva og liðamót í fingrum, höndum og handleggjunum. Hvernig vitum við að þetta er ein appelsína en ekki margar ólíkar appelsínur? Hvað lætur báðar hendur og alla tíu fingur vinna saman? Öll skynboðin sem þessi athöfn vekur koma saman á einum stað í heilanum og eru samhæfð þar, þannig að við skynjum appelsínuna sem eina heild og getum samhæft hendur og fingur og þannig náð berkinum utan af henni. Ef samhæfing skynsviða er léleg getur þessi athöfn og aðrar viðlíka reynst verulega flóknar.

Við höfum misgóða S.I. og mun slakari þegar við erum þreytt. Flestir hafa hana þó nógu góða til að komast vel af. Truflun á samhæfingu skynsviða kemur oftast fram í lélegri samhæfingu hreyfinga, einbeitingarleysi, vanlíðan og erfiðri hegðun. Þessi truflun getur verið á misháu stigi. Flest misþroska börn eiga við þennan vanda að stríða, mörg ofvirk börn svo og börn með Tourette heilkenni, o. fl. Einnig má nefna að fólk með Alzheimersjúkdóm er oft illa haldið af skyntruflunum. Sá hópur sem hefur sennilega einna alvarlegustu truflanir á þessu sviði er fólk með einhverfu og skyldar fatlanir s. s. ódæmigerða einhverfu og Aspergerheilkenni.

Skyntruflanir hjá einhverfum-
reynslusögur

Í þessum kafla mun ég leitast við að veita innsýn í skyntruflanir einstaklinga með einhverfu eins og þeir sjálfir lýsa þeim. Sagt er frá könnun sem Genfarmiðstöðin í Toronto í Kanada gerði þar sem þrjátíu einstaklingar með einhverfu voru spurðir spurninga varðandi skynjun, minni, hreyfingu, hegðun og tengsl. Einnig eru lýsingar frá öðrum einhverfum sem hafa tjáð sig um líðan sína ásamt sögu af af lítilli stúlku með Asperger heilkenni. Þá sem vilja fá enn fyllri lýsingar á skyntruflunum einhverfunnar hvet ég til að lesa bók Temple Grandin "Dyrnar opnast", sem vísað var til í inngangi. Einnig má benda á bók mæðginanna Sean og Judy Barron sem er nýútkomin á íslensku og heitir "Hér leynist drengur".

Í könnun Genfarmiðstöðvarinnar kom fram, að flestir höfðu truflun á heyrnarskynjun eða 87%, næst kom truflun á sjónskynjun með 81%. Því næst kom truflun á skynjun snertingar eða hjá 77%, truflun á lyktarskyni var hjá 56% og 30% lýstu truflun á bragði. Um var að ræða ofurnæmi eða of litla skynjun sem oft var sögð breytast frá degi til dags og yfir lengri tíma.

Heyrn: Ein sagði svo frá: "Það sorglega við heyrn mína var, að rödd föður míns var stórfurðuleg. Hún hljómaði eins og verið væri að skjóta úr byssu. Það var hræðilegt að vera nálægt honum. Ég var hrædd um að hann héldi að ég þyldi hann ekki, en það var alls ekki svo, ég var aðeins hrædd við rödd hans." Annar lýsti svo: "Ég heyri hljóð sem þú getur ekki heyrt og stundum er það að gera mig vitlausan, fólk að krota með penna eða blýanti, að rugga sér á stól eða það brakar í fötum. Ég heyri jafnvel í loftinu þegar það fer um herbergið, jafnvel gólfið veldur hávaða. Rigning hljómar eins og hríðskotabyssa. Hljóðin í einu herbergi renna öll saman í einn hrærigraut".

Georgie Stehli, sem greind var einhverf sem barn en náði síðan undraverðum bata eftir sérstaka meðferð, "Auditory Integration Training", sem kynnt verður síðar, hefur sagt frá hvernig ofurnæm heyrn hennar olli miklum svefntruflunum. Á nóttinni heyrði hún í eigin líkamsstarfsemi, hjartsláttinn, rennsli blóðsins um æðarnar o. s. frv. Þessu fyrirbæri lýstu margir í könnuninni. Stöðugum hljóðum frá eigin líkama var lýst hræðilega truflandi og oft voru þau ástæða fyrir erfiðri hegðun.

Einn sagði svo frá: "Hamagangurinn í hjartanu orsakaði hvernig ég lét. Hegðun mín stjórnaðist oftast af því sem ég heyrði." Flestir sögðu að viðkvæmni fyrir sérstökum hljóðum minnkaði með aldrinum og einnig að hún væri mismikil frá degi til dags. Ein lýsingin hljóðaði svo: "Stundum þegar önnur börn voru að tala við mig, heyrði ég varla í þeim og í annan tíma hljómaði rödd þeirra eins og byssuskot."

Sjón: Dæmi voru um mjög skarpa sjón, sem beindist að agnarlitlum smáatriðum, sterka sjón út til hliðar, breitt sjónsvið og sjónræna upplifun sem gat verið ýmist truflandi eða örvandi. Einnig voru dæmi um truflað dýptarskyn og brenglaða skynjun á stærð og lögun hluta og hreyfingu.

Þegar fyrrgreind Georgie Stehli var lítil var hún mjög upptekin af hári fólks. Hún gat seinna sagt frá því að það, sem heillaði hana var að hún sá hvert einstakt hár út af fyrir sig hanga eins og spaghetti. Ofurnæm sjón virðist oft skapa möguleika á örvun sem sumum er ómótstæðileg. Fleiri en einn veittu í könnuninni áhugaverða innsýn í það þegar einhverfir festast í því að leika sér með vatn. Þeir lýstu því hvernig áhrif ljóss og lita á vatn heillaði þá og hjálpaði þeim að róa sig og dreifa huganum.

Einn sagði svo frá: "Þegar ég skvetti vatni, horfi ég mjög stíft á það til að sjá alla fallegu litina sem endurkastast frá ljósinu. Litirnir hjálpa mér til að leiða hjá mér öll háu hljóðin inni í höfðinu á mér." Sumir blanda sápu í vatnið til að fá enn meiri áhrif. Varðandi sterka sjón út til hliðar, þá sagði einn svo frá: "Ég horfi á hluti út til hliðar því það er auðveldara. Þegar ég horfi beint á hluti sé ég þá ekki rétt."

Varðandi dýptarskynjun lýstu margir erfiðleikum við að fara niður stiga. "Þegar ég er efst í stiganum horfi ég ekki niður, því hann lítur út fyrir að vera allt of langur til þess að það þýði að ganga niður." Annar sagði svo: "Mér finnst erfitt að ganga niður stiga. Ég er hræddur um að ég misreikni mig á stærð þrepanna og detti." Við getum fengið smá innsýn í þessa skyntruflun með því að ganga niður stiga og horfa á meðan í gegn um kíki sem snýr öfugt.

Truflun á að skynja lögun, stærð og hreyfingu hluta, var oft lýst með því að viðkomandi fannst veggirnir koma á móti sér, gólfið hverfa undan fótunum o. s. frv. Þessar skyntruflanir orsökuðu oft hegðun sem var erfitt að skilja fyrir þann sem horfði á. Ein kona lýsti svo: "Ég sé hluti hreyfast hratt upp og niður. Ég verð mjög hrædd, mér finnst eins og allt komi í áttina til mín." Ég þekki litla sex ára stúlku með Asperger heilkenni, sem hefur mikla truflun á sjónskynjun, hún er stundum mjög hrædd við ljósið í loftinu og hún er haldin ofsahræðslu við einn ákveðinn borðlampa. Þegar búið var að setja þennan lampa upp á háaloft var hún ennþá óróleg og sagði við mömmu sína: "Hann er með fót, getur hann örugglega ekki gengið?" Hún hefur ekki ennþá getað útskýrt hvað það er við lampann, sem er svo skelfilegt en hún á örugglega eftir að gera það. Líklega er um ofurnæmi fyrir ljósi að ræða og hugsanlega truflaða skynjun á lögun og stærð hluta.

Donna Williams, einhverf kona, sem hefur skrifað tvær bækur um reynslu sína hefur lýst ótrúlegum skyntruflunum ekki síst af sjónrænum toga. Þegar Temple Grandin var stödd hér sagði hún sögu af því, þegar hún eitt sinn var að tala við Donnu Williams í síma. Í miðju símtali þagnaði Donna skyndilega og ekkert heyrðist í langan tíma. Þegar hún loks mátti mæla sagðist hún hafa séð kött hlaupa hjá, en Donna hefur þannig truflanir að hún á mjög erfitt með að horfa og tala í einu. Margir hafa lýst mjög sterku sjónminni. Enda hafa sjónrænar vísbendingar gefist mjög vel við meðferð einhverfra.

Snerting: Flestir hinna fullorðnu lýstu því að þeir hefðu verið mun viðkvæmari sem börn. Einn svaraði svo: "Sem lítið barn þoldi ég ekki að fólk snerti mig, það dró úr mér allan mátt " mér fannst eins og ég myndi brotna". Ein kona sagði svo frá: "Mér fannst öll snerting sársaukafull og ég var hrædd." Margir sögðu að þeir þyldu betur snertingu ef þeir réðu ferðinni sjálfir, þekktu viðkomandi eða vissu fyrirfram að einhver myndi snerta þá. Margir hafa lýst því að þola illa snertingu af fötum t. d. ef þau eru víð eða úr grófu efni og eins að erfitt sé að skipta um föt. Temple Grandin hefur leyst þau mál hjá sér, með því að ganga í þröngum fötum, sem eru mjög lík í sniðinu. Mjög algengt er að einhverfir þoli betur sársauka en aðrir.

Lykt: Ekki var í könnuninni lýst alvarlegum vandamálum vegna truflunar á lyktarskyni, en slík truflun getur þó útskýrt sérstaka hegðun. Hér er dæmi um dreng, sem vildi alls ekki ganga yfir grasflatir: "Þegar ég var lítill fannst mér graslyktin vond. Lykt af nýslegnu grasi þykir mér enn of vond til þess að ég geti gengið á því." Sumir lýstu því að þeir þekktu fólk og staði af lyktinni. "Ég vil gjarnan lykta af fólki því þá þekki ég það örugglega."

Bragð: Svörin við þessari spurningu vísuðu frekar til annarra eiginleika fæðu en bragðs, einnig þráhyggju í sérstakan mat. Mjög algengt var að vilja frekar mjúka fæðu: "Mér finnst gott að borða mjúka fæðu, því hún veldur ekki hávaða. Mér finnst mjög óþægilegt að borða salat, því það heyrist svo hátt í því."

Varðandi tilfinningu fyrir eigin líkama hefur Jim Sinclair (High Functioning Individuals with Autism 1992) sagt svo frá: "Það var ekki nóg að finna augu mín, hendur og fætur bara einu sinni heldur þurfti ég að finna þessa hluta af mér aftur og aftur. Þarft þú að muna að stinga augunum í samband, til að finna út hvað þú ert að horfa á? Þarft þú að finna fæturna á þér áður en þú getur gengið?"

Ekki er að furða þó eitthvað fari úrskeiðis í hegðun fólks, sem býr við þvílíkar truflanir á skynjun sem hér hefur verið lýst. Þeir sem hér hafa sagt frá, eru flestir í þeim hópi einhverfra sem teljast getumeiri. Leiða má líkur að því að þeir sem eru getuminni líði af ennþá meiri truflunum á skynjun en hinir. Við höfum ekki frásagnir úr þeim hópi, sennilega skortir okkur líka hugarflug til að ímynda okkur það sem þeir þurfa að upplifa "en við getum reynt".

"Sensory Integration" meðferð

Svokölluð S.I. meðferð hefur verið notuð um árabil fyrir þá sem búa við lélega samhæfingu skynsviða og í mörgum tilvikum gefið góða raun. Því miður hefur ekki verið lögð jafnmikil áhersla á þessa meðferð fyrir einhverfa eins og aðra hópa sem glíma við þennan vanda s.s. misþroska börn. Ástæðan er sennilega sú að einhverfir hafa svo mörg og stór vandamál, sem bráðliggur á að taka á með öðrum aðferðum s.s. sérkennslu og mótun hegðunar. Vegna hinna alvarlegu skyntruflana einhverfra ætti þessi meðferð að vera sjálfsagður þáttur í allri þjálfun þeirra, hvaða nafni sem hún nefnist.

Meðferðin felst í því að örva það svæði í heilanum, sem stýrir meðvitund og athygli og talið er að sjái um síun og úrvinnslu skynboða (formatio reticularis í heilastofni). Meðferðin miðar að því að örva barnið á því sviði sem hefur ekki þroskast eðlilega og því þarf að byrja á því að greina vandann. T. d. ef barn þolir illa snertingu þarf að leggja sérstaka áherslu á að örva snertiskyn.

Mjög veigamikill þáttur meðferðarinnar er örvun "vestibular" skynsins (jafnvægiskerfis í innra eyra), sem hefur verið nefnt fyrr í þessari grein. Ástæðan er sú, að svokallaðir "vestibular" kjarnar, sem nema boð frá "vestibular" kerfi innra eyrans eru á sama svæði í heilanum og áðurnefnt úrvinnslusvæði þ. e. í heilastofni. Þannig er hægt að hafa bein áhrif á úrvinnslusvæðið með örvun "vestibular" skyns. Þroski "vestibular" kerfisins skiptir því mjög miklu máli fyrir samhæfingu skynsviða. Litli heili tekur síðan við skynboðum til frekari úrvinnslu og gegnir því veigamiklu hlutverki ekki síst hvað varðar jafnvægi, samhæfingu hreyfinga og að hefja hreyfingar ."Vestibular" skyn þroskast snemma á fósturskeiði, enda er fóstur í stöðugri "vestibular" örvun í legvatninu, snertiskyn þroskast einnig snemma vegna straumhvarfa vatns á yfirborði fósturs.

Börn með vandamál á þessu sviði eru ýmist hæg og varkár og þola illa snúning og veltur. Þau eru þar af leiðandi oft bílveik, á meðan önnur sýna gagnstæða hegðun, eru stöðugt á ferðinni og þola óvenjulega mikinn snúning. Þau eiga erfitt með að átta sig á í hvaða afstöðu þau eru til umhverfisins.

Til að örva "vestibular" skyn er hægt að nota rólur, hengirúm, kaðla, bretti á hjólum, skrifstofustól, trampólín, klifra upp í rimla og hoppa niður o. fl. Oftast þarf einnig að örva snertiskyn og stöðuskyn.

Snertiskyn er örvað með því að bursta líkamann á sérstakan hátt. Getur þurft að gera það allt að 6 sinnum á dag fyrstu vikuna í meðferð og síðan tvisvar sinnum á dag. Burstað er í 2-5 mínútur í senn. Við burstunina losnar endorfin sem eykur vellíðan, alveg eins og gerist við sjálfsörvun einhverfra og einnig við hressilega hreyfingu s.s. hlaup.

Temple Grandin fann upp sína eigin aðferð til að örva snerti- og þrýstiskyn er hún hannaði vél sem gefur þrýsting á líkamann og þannig sterka örvun, sem hefur róandi áhrif. Hún hefur ráðlagt þessa vél fyrir eldri einhverf börn og fullorðna "til að læra að sætta sig við snertingu og draga úr ofvirkni og æsingi í taugakerfinu" (Dyrnar opnast). Fyrir yngri börn er hægt að nota dýnur og láta þau vefja sig inn í þær. Þungar svuntur sem notaðar eru við myndgreiningu (röntgen) er hægt að nota og grjónapúðar eru mjög góðir þar sem þeir gefa jafnan og góðan þrýsting. Síðast en ekki síst má nefna þétt og gott faðmlag á forsendum barnsins. Flest vilja þau fá þrýstinginn á bakið og hliðarnar.

Til gamans má geta þess, að þegar kenning Leo Kanners um "ísskápsmóðurina" var alls ráðandi í meðferð einhverfra, var þróuð sérstök meðferð svokölluð "Holding Therapy".Þessi meðferð fólst í því að móðirin kalda var látin halda á barni sínu þétt í fanginu í nokkurn tíma í einu til að byggja upp tengslin á milli þeirra. Að sjálfsögðu börðust mörg börnin um á hæl og hnakka þar sem þau þoldu ekki snertinguna og átti þá móðirin bara að beita kröftunum. Það merkilega við þessa meðferð var að hún virkaði í sumum tilfellum þannig að barninu leið betur. Ástæðan var að sjálfsögðu annars eðlis en menn héldu, eins og fram hefur komið hér að ofan.

Stöðuskyn er örvað með samþjöppun liðamóta og með því að láta börnin hoppa.

Þeir sem veita þessa meðferð og stýra henni eru sjúkra- og iðjuþjálfar, sem hafa aflað sér sérþekkingar á þessu sviði. Meðferðin tekur mánuði eða ár og til þess að árangur náist er mikilvægt að náin samvinna sé á milli allra þeirra sem annast barnið s.s. þjálfara, foreldra, kennara, þroskaþjálfa og leikskólakennara. Best er að flétta meðferðina inn í daglegt líf barnsins, þ.e. brjóta upp daginn með S. I. hreyfingu. Mikilvægt er því að aðstaða til þess sé fyrir hendi. T. d. ætti að vera í hverri sérdeild fyrir einhverfa sérstakt hreyfihorn eða hreyfiherbergi, sérútbúið fyrir S.I. meðferð. Ef foreldrar hafa tök á, er mjög gott að hafa heima t. d. trampólín, bretti á hjólum, rólu eða hengirúm og grjóna-púða eftir því sem aðstæður leyfa.

Árangur meðferðarinnar er hægt að sjá m. a. í betri líðan, betri samhæfingu hreyfinga, betri einbeitingu, meiri sjálfstjórn, bættri hegðun og aukinni félagslegri færni. Með betri líðan og einbeitingu verða skilyrði til náms að sjálfsögðu betri og mörg dæmi eru til um góð áhrif S. I. meðferðar á lestrargetu. "Vestibular" örvun getur stundum örvað tal hjá einhverfum börnum. Ef barn er látið sveiflast hægt í rólu getur það stundum hjálpað til að koma tali af stað. (Ray, King & Grandin, 1988).

Talið er mikilvægt í þessari meðferð, að barnið fái að velja sjálft örvunina, því heilinn vinni betur úr og áhrif meðferðarinnar verði meiri ef barnið á sjálft frumkvæðið. Einnig er talið að barn sæki í örvun á því sviði sem það þarf hennar með. Meðferðin á þannig að vera leikur í skipulögðu S. I. umhverfi. Vegna skorts á sjálfsstjórn, þurfa einhverf börn þó oft meiri stýringu og skipulag en þau sem minni truflanir hafa.

S.I. meðferð er oft notuð með annarri hreyfiþjálfun. Hjá einhverfum hefur reynst vel að nota "skipulögð vinnubrögð" (TEACCH) í þjálfuninni og er þá samvinna sjúkra- eða iðjuþjálfa og annarra meðferðaraðila barnsins svo og foreldra sérstaklega mikilvæg. Með "skipulögðum vinnubrögðum", er átt við sérstakt þjálfunar- og kennslukerfi, sem hefur verið þróað í Bandaríkjunum fyrir einhverfa og aðra með skylda fötlun og notið hefur mikilla vinsælda út um allan heim. Þetta kerfi byggir m. a. á skipulögðu umhverfi og sjónrænum vísbendingum. Í Brøndagerskolen sem er sérskóli fyrir einhverf börn í Kaupmannahöfn hafa sjúkraþjálfari og kennari unnið tilraunaverkefni á þessu sviði sem skilað hefur góðum árangri.

"Auditory Integration Training" er sérstök meðferð, sem hefur verið þróuð til að leiðrétta heyrnarskynjun. Höfundur þessarar meðferðar var franskur háls- nef- og eyrnalæknir, Guy Berard að nafni. Meðferðin byggir á sömu lögmálum og S. I. meðferð og ætti því að flokkast innan hennar. Í þessari meðferð er heyrnarskynið örvað á kerfisbundinn hátt. Eins og fram hefur komið, er "vestibular" kerfið staðsett í innra eyra, þannig að örvun heyrnarskyns hefur að öllum líkindum áhrif á það líka. Viðkomandi hlustar í gegn um heyrnartæki á tónlist úr sérhönnuðu tæki, sem er sérstaklega valin m.t.t. tíðni, í hálfa klst. tvisvar sinnum á dag í 10 daga. Þessi meðferð hefur hjálpað mörgum einhverfum og hefur verið sýnt fram á það með rannsóknum. Frægasta dæmið um árangur þessarar meðferðar er saga Georgie Stehli. Þessi meðferð er ekki veitt fyrr en barn er orðið fjögurra ára og stendur því miður ekki enn til boða hér á landi.

Lokaorð

Hér hefur verið leitast við að gefa innsýn í þær miklu truflanir sem einhverfir hafa á sviði skynjunar og sagt frá mögulegri meðferð við þeim. Ég tel mjög mikilvægt að foreldrar og allir þeir sem umgangast eða veita fólki með einhverfu þjónustu fái fræðslu um þessar skyntruflanir. Þeir sem gera sér grein fyrir þessum alvarlegu truflunum eiga auðveldara með að skilja einhverft fólk og bregðast við óvenjulegri hegðun þeirra "sem í raun er eðlileg viðbrögð við fötluninni".

Skilningur er einnig forsenda þess, að áhersla verði aukin á að uppfylla þarfir einhverfra fyrir skynörvun á markvissari hátt en nú er gert hér á landi. Þannig má bæta líðan margra og hjálpa til aukins þroska.

Heimildalisti:
Ayres, J.: Sensory Integration and the Child, Western Psychological Services, Los Angeles 1976.
Berard, G.: Hearing Equals Behavior. Keats Publishing Inc., Connecticut 1993.
Grandin, T. Ph.D. Scariano,M.M.: Dyrnar opnast. Umsjónarfélag einhverfra 1992.
Stehli, A.: The Sound Of A Miracle. Doubleday, New York 1991.
Þóra Þóroddsdóttir: Samhæfing skynsviða, námskeið. Reykjavík 1993.
Elísabet Berents: Sensory Intergration, námskeið. Reykjavík 1995.
Walker N., Cantello J.: "You don´t have words to describe what I experience." The Geneva Centre, Toronto 1994.
Edelson, S.M., Waddell L.L: Auditory Training and the Auditory Training Project. Center for the Study of Autism Newberg, Oregon
Buur, Mette; Deibjerg Mette: Jeg kan selv. Köbenhavns Amt, Kulturel Forvaltning, 1996.
Grandin T. Ph. D. : An Inside View of Autism. High- Functioning Indviduals with Autism, edited by Eric Schopler and Gary B. mesibov. Plenum Press, New York, 1992.
Grandin T. Ph. D. : Calming Effects of Deep Touch Pressure in Patients with Autistic Disorder, College Students, and Animals. Journal of Child and Adolescent Psychopharmacologi. Volume 2,Number1, 1992. Mary Ann Liebert, Inc., Publishers.
Ray, T. C., King, L. J.,& Grandin, T. ( 1988 ).The effectiveness of self-initiated vestibular stimulation in producing speech sounds in autistic child. Journal of Occupational Therapy Research, 8, 186-190.
Schopler, E., Mesibov,G., High-Functioning Individuals With Autism, 1992. Plenum Press, New York, N. Y.