Eftirfarandi þrjár sögur eru unnar upp úr B.Ed ritgerð. Tvær fyrri sögurnar fjalla um frábæra drengi sem höfundur þekkir persónulega. Þriðja og síðasta sagan fjallar um son höfundar. Það er stiklað á stóru í þessum stuttu frásögnum og þjóna þær eingöngu þeim tilgangi að sýna fram á að þjálfun einhverfra barna skiptir sköpum fyrir þau sem einstaklinga og einnig fyrir fjölskyldur þeirra. Þetta eru litlir sigurvegarar.
Gunnar
Gunnar er fæddur í janúar árið 2006 en hóf leikskólagöngu um haustið 2007. Hann er eina barn foreldra sinna og býr með þeim báðum. Það sem skar Gunnar frá barnahópnum var hvað hann tengdist lítið hinum börnunum og var frekar einrænn. Hann sýndi þó börnum alltaf áhuga en hafði en skorti hæfileika í félagslegu samspili til að nálgast þau. Þegar hann fór að fara með þjálfa út af deildinni í þjálfun fór allt að breytast. Atferlisþjálfun Gunnars hófst árið 2010 og fór fljótlega að sjást mikill munur á samskiputm Gunnars við aðra, bæði fullorðna og börn. Hann fór að tjá sig meira um sínar óskir, hvað hann vildi borða, hvað hann langaði að gera og slíkt. Mál hans varð einnig skýrara eftir því sem hann varð öruggari að tjá sig, hann fór að tala hærra og ákveðnar. Áður en þjálfun hófst bar mun meira á bergmálstali (echololiu) og Gunnar virtist skilja minna til hvers var ætlast af honum.
Hann hefur tekið miklum breytingum á öllum sviðum að mati foreldra. Hreyfiþroski hefur stórlega batnað eftir að hann fór í þjálfun á Æfingarstöðinni og hafa þjálfar Gunnars á leikskólanum haldið þeirri þjálfun við eins og best er að komið. Líkamlegt látbragð hans hefur færst í rétta átt með þjálfun, það er að líkamsbeiting hans hæfir aðstæðum betur, og hann er betri í tjáningu með svip og einnig í að lesa svipbrigði og látbragð annara. Foreldrum Gunnars þykja breytingar til batnaðar hjá barninu sínu vera gríðarlegar eftir að hann hóf atferlisþjálfun og horfa björtum augum til framtíðar fyrir Gunnar. Þau eru ánægð með opin og góð samskipti við þjálfana og segja að þau hafi dottið í lukkupottinn með þjálfa Gunnars og muni alltaf búa að því. Móðir Gunnars sagði um atferlisþjálfun:
„Þjálfunin skiptir miklu máli í lífi okkar fjölskyldunnar. Áður en Gunnar hóf þjálfunina þá fannst mér óþægilegt að skilja hann eftir á leikskólanum, vitandi það að hann væri svo mikið einangraður í sjálfum sér – mér fannst líka erfitt að sækja hann á leikskólann því mér fannst hann svo umkomulaus og félagslega afskiptur eitthvað. Man að ég hafði orð á þessu við pabba Gunnars, oftar en einu sinni. Núna líður okkur öllum mun betur vitandi af því að hann er að hafa meiri samskipti og það er markvist verið að toga hann útí lífið og veita honum færni til að eiga í félagslegum samskiptum. Lífið byggist að svo miklu leyti uppá félagslegum samskiptum og því er svo mikilvægt að þjálfa þau upp hjá börnum á einhverfurófi. Svo þau geti fótað sig í lífinu seinna meir.“
Elvar
Elvar er fæddur í nóvember árið 2003 og fékk greininguna dæmigerð einhverfa árið 2007. Hann er fyrsta barn móður sinnar og á eina alsystur sem er rúmum tveimur árum yngri en hann. Hann á tvær hálfsystur sem hann er samfeðra með og eru þær báðar eldri. Engin systra hans hefur nein einkenni einhverfu. Elvar byrjaði í atferlisþjálfun árið 2007 í leikskóla og tók fljótt miklum framförum. Áður en þjálfun hófst talaði Elvar mikið bergmálstal og fékk gjarnan að láni setningar úr bíómyndum til að tjá sig. Elvar sótti ekki í önnur börn sem félagsskap og virtist oft ekki taka eftir þeim, hann var þó alltaf náinn litlu systur sinni.
Eftir að markviss þjálfun hófst fór Elvar að sýna öðrum börnum meiri áhuga og fékk aðstoð þjálfa við að nálgast þau í leikskólanum. Elvar hafði ekki tök á eftirhermu áður en þjálfun hófst en sú færni kom fljótt eftir að markvisst var farið að vinna með þann þátt. Með eftirhermunni náði hann betri tökum á þykjustuleik og öðrum leikjum með barnahópnum. Elvar stórbættist í öllum samskiptum eftir að þjálfun hófst, bæði fullorðna og börn. Í dag gengur Elvar í almennan grunnskóla í hverfi sínu og gengur það vel. Foreldrar Elvars hafa mikla trú á þjálfun fyrir barnið sitt en jafnframt að alltaf þurfi foreldrar að fylgjast með vinnunni sem unnin er með barninu og góð samskipti milli foreldra og þjálfa eru eitt það mikilvægasta.
Móðir Elvars sagði: „Já ég held að þjálfun hafi skipt sköpum fyrir hann sem einstakling. Hann hefur aldrei verið erfiður í samskiptum. Hann er barnið sem á það til að „gleymast“ auðveldlega því hann er svo ljúfur og sjálfum sér nægur. Hann hefur lært ýmsa hæfni sem auðveldar honum lífið og auðvitað hefur það áhrif á fjölskylduna að sjá barnið sitt taka framförum, læra verða sjálfstæðara, það veitir manni gleði, öryggistilfinningu.Varðandi fjölskyldulífið þá búum við pabbi hans ekki saman og við höfum breytt umgengninni á þann hátt að hann er 66% hjá pabba sínum og 33% hjá mér. Þetta gerðum við til að veita honum meiri athygli, EKKI af því að hann sé erfiður eða öðrum fjölskyldumeðlimum finnist erfitt að vera í kringum hann. Þetta er að vísu nýbyrjað og við eigum eftir að sjá hvernig þetta gengur. Eitt gott dæmi um hvað það skiptir miklu máli að ég og pabbi hans séum með puttann á púlsinum hvað varðar þjálfun hans er að kennari hans talaði um að hann kynni ekki stafina nógu vel. Þetta þótti okkur skrítið og tókum nokkrar þjálfunarlotur í samráði við sálfræðing Elvars og eftir nokkra daga byrjaði hann að lesa.“
Faðir Elvars er bjartsýnn á framtíðina og trúir því að Elvar sé jafn vel á veg kominn og raunin er vegna góðrar þjálfunar.
„Alveg tvímælalaust, ég skyldi þetta fyrst þegar einhver útskýrði fyrir mér að ungabörn læra með að gera, t.d. ungabarn sem fattar að það getur klifrað upp á stól lærir að fullkomna það með að klifra uppá stólinn 100 sinnum eða svo. Elvar og aðrir sem eru með einhverfu hafa ekki það frumkvæði að “klifra upp á stólinn” og það er hlutverk þjálfa og foreldra að hvetja hann til að “klifra upp á stólinn” aftur og aftur. Samband okkar styrkist með hverjum degi þar sem allir dagar hafa einhverjar framfarir. Einhverfa Elvars er verkefni allra sem standa að honum og hefur það styrkt samband mitt við önnur börn mín.“
Ari
Ari er fæddur í október árið 2003. Hann fékk lokagreiningu, dæmigerð einhverfa, í lok árs 2008. Hann býr með báðum foreldrum sínum og litlu systur sinni sem er þremur árum yngri en Ari. Áður en þjálfun hófst bar mikið á bergmálstali hjá Ara. Frasar úr bíómyndum og bókum var það sem hann notaði helst til að tjá sig, vélrænt bergmálstal. Líkamstjáning hans var ekki í takt við umhverfið. Hann sóttist ekki eftir félagsskap annara barna og hafði engin tök á eftirhermu. Ari átti einnig til að sýna hegðun sem önnur börn túlkuðu sem ógnandi þó hann meinti það alls ekki endilega þannig. Hann átti mjög erfitt með að segja frá tilfinningum sem hann fann hverju sinni og eitt sinn þegar ég kom að sækja hann í leikskólann, þá var hann tæplega þriggja ára, tók ég strax eftir því að hann bar sig ekki eins og venjulega. Starfsfólk leikskólans hélt að hann væri kannski að verða veikur en ég sá strax að hann var sárkvalinn. Hann hafði þá dottið úr olnbogaliðnum, en það hafði gerst áður heima, og þannig hafði hann verið allan daginn í leikskólanum því hann kunni ekki að segja frá hvar honum var illt.
Þegar Ari fór að fara í einstaklingsþjálfun árið 2008 fór strax að bera á breytingum í allri hegðun og samskiptum. Honum fór fram á öllum sviðum hratt og örugglega en með auknum kröfum fór hann að sýna meira skap og reiði. Hann átti erfitt með þegar illa gekk og hafði mikla þörf fyrir að stjórna umhverfi sínu, og hefur reyndar ennþá í dag, en það þótti okkur foreldrunum bara jákvætt því með því að mótmæla og sýna skapið sitt er hann að tjá sínar eigin raunverulegu tilfinningar en ekki að draga sig inn í skel. Eftir að þjálfun hófst fór hann líka að tala meira við okkur en ekki bara þylja upp texta. Hann sagði frá hvað hann hefði verið að gera yfir daginn, við þurftum alveg að toga það smá upp en það kom samt. Hann lærði að segja hvernig honum líður og hvað hann vantar. Hann hefur nýtt sér þjálfunina í öllu daglegu amstri en hann er samt alltaf að læra eitthvað nýtt og mæta nýjum áskorunum því félagslegt samspil við jafnaldra verður erfiðara og erfiðara eftir því sem þau eldast. Hann þarf enn í dag stífan ramma, vita til hvers er ætlast af honum hverju sinni, umbunakerfi og fleira slíkt. Við notum mikið félagshæfnisögur með honum og þær hafa virkað vel alltaf.
Við erum bjartsýn á framtíðina fyrir Ara en viljum helst bara einbeita okkur að hverri stund og ekki hlaupa fram úr okkur í huganum. Hann er fróðleiksfús og þykir gaman að læra og vonandi heldur hann því áfram en ef hann hefði ekki fengið atferlisþjálfun á leikskóla held ég að hann væri ekki svona vel staddur í dag. Hann var með dásamlegan þjálfa á leikskólanum og er hún í dag stuðningsforeldri hans. Hún er algjör klettur. Pabbi Ara er sammála því að þjálfun hafi skipt miklu máli „Já. Allt til hins betra, við náum miklu betur saman. Samverustundir fjölskyldunnar eru ánægjulegri vegna þess að samskiptin eru opnari og getum átt ánægjulegri stundir með báðum börnunum okkar saman. Þjálfunin opnaði leið fyrir Ara til okkar, hann er ekki í sínum eigin heimi heldur með okkur og sækist eftir félagsskap okkar“