Á alþjóðlegum degi einhverfra laugardaginn 2. apríl verður mikið um að vera hjá Umsjónarfélagi einhverfra. Klukkan 14:00 verður opnunarhátið í nýjum húsakynnum Specialisterne á Íslandi, en fyrirtækið er hið eina sem hefur það að meginmarkmiði að þjálfa einstaklinga á einhverfurófinu til aukinnar atvinnuþátttöku.
Við sama tækifæri kemur út bókin Frík, nördar og Aspergerheilkenni gefin út af Forlaginu í samstarfi við Umsjónarfélag einhverfra. Bókin er skrifuð af 13 ára dreng sem segir sögu sína. Bókin hefur vakið heimsathygli enda veitir hún lesendum fáheyrða innsýn inn í heim einhverfra.
Meðal gesta á laugardaginn verður Thorkil Sonne, stofnandi Specialisterne í Danmörku, en hann mun kynna og segja frá starfsemi Specialisterne.
Dagskráin hefst kl.14:00 Suðurlandsbraut 24, 2. hæð og er það von okkar að sem flestir sjái sér fært að mæta og fagna þessum degi með okkur.