Alþjóðlegur dagur einhverfu, 2. apríl er á morgun.
Við göngum inn í apríl við óvenjulegar aðstæður í samfélaginu. Alla jafna værum við að halda málþing og fundi en allt slíkt bíður betri tíma. Fyrir hálfu ári kom upp sú hugmynd í stjórn Einhverfusamtakanna að halda upp á 2. apríl með því að hver og einn geri eitthvað óvenjulegt eða öðruvísi. Miðað við stöðuna í heiminum er það kannski viðeigandi.
Fyrir einhverft fólk getur það verið áskorun að gera eitthvað óvenjulegt eða öðruvísi því þörfin fyrir rútínu og reglu á hlutunum er eitt af einkennum einhverfu. En við erum ekki að tala um að umturna okkar daglegu venju. Eitthvað óvenjulegt eða öðruvísi gæti einfaldlega verið að fara í peysuna úthverfa eða fá sér steik í morgunmat í stað hafragrauts.
Tökum þátt og tökum myndir. Gaman væri að sjá myndir á netinu með millumerkjunum #einhverfusamtökin eða #einhverfa.