Ályktun aðalfundar Einhverfusamtakanna sem haldinn var 29. apríl 2024.

 

Ályktun aðalfundar Einhverfusamtakanna 29. apríl 2024. 

Aðalfundur Einhverfusamtakanna lýsir yfir þungum áhyggjum vegna skólagöngu einhverfra barna og ungmenna.

Einhverfusérdeildir grunnskóla eru of fáar og mikil vöntun er á plássi á starfsbrautum framhaldsskóla. Stöðugar fréttir eru fluttar af einelti, óviðunandi námsaðstæðum og skorti á sérhæfðum úrræðum fyrir einhverfa.

Á hverju vori er hópur barna sem ekki fær inni í úrræðum sem þau þurfa nauðsynlega á að halda til að geta lært og þroskast og í húsnæði sem tekur mið af skynjun einhverfra.

Mikilvægt er að starfsfólk skóla fái fræðslu um einhverfu með reglubundnum hætti svo þekking viðhaldist. Fjölga þarf fagmenntuðu fólki í skólum landsins svo hægt sé að koma til móts við þarfir einhverfra.

Einhverfusamtökin skora á ríki og sveitarfélög að koma að og hugsa menntun einhverfra barna upp á nýtt út frá þeirra þörfum.