Umboðsmaður Alþingis hefur nú, annað árið í röð, óskað eftir upplýsingum frá fræðsluyfirvöldum um aðskilnað barna frá samnemendum sínum og vistun þeirra í sérstökum rýmum grunnskóla. Fyrirspurnir Umboðsmanns koma í kjölfar ábendinga og kvartana frá foreldrum um að börn hafi verið aðskilin frá samnemendum sínum og vistuð ýmist í liltum gluggalausum rýmum eða í sérstökum herbergjum um lengri eða skemmri tíma. Að þessu sinni spyr Umboðsmaður sérstaklega um það hvort vitneskja sé um sérstakt verklag í skólum um slík herbergi, sem oft munu vera kölluð rauð eða gul.
Stutt leit á netinu leiðir fljótt í ljós að slíkar reglur eru sannarlega til og eru jafnvel mjög nýlegar. Þannig má til dæmis lesa á heimasíðu Skarðshlíðarskóla, nýjasta grunnskóla Hafnarfjarðar, verklagsreglur um gult herbergi dagsettar í ágúst síðastliðnum sem unnar eru úr gögnum frá Brúarskóla og Starfsviðmiðum skólaþjónustu.
Svarið við fyrirspurn Umboðsmanns virðist því að einhverju leyti liggja ljóst fyrir. Það eru til slík herbergi og reglur um notkun þeirra og þetta verklag virðist síður en svo tilheyra fortíðinni heldur þvert á móti vera í fullu fjöri.
Herbergi fyrir börnin eða skólann?
Undanfarið ár hef ég heimsótt tugi skóla með fræðslu á vegum Einhverfusamtakanna. Það hefur verið bæði gefandi, ánægjulegt og lærdómsríkt. Eitt af því sem ég hef tekið eftir í þessum heimsóknum er almennur skortur á svokölluðum skynrýmum, eða svæðum þar sem skólabörn geta sótt sér næði og jafnað sig á áreitinu sem dvöl í skóla hefur í för með sér.
Börn á einhverfurófi, sem eru reyndar örugglega mun fleiri en tölur um greiningar gefa til kynna, upplifa skynáreiti á annan hátt en almennt er reiknað með í hönnun á manngerðu umhverfi. Skynfæri þeirra er oft næmari á ljós, hávaða, lykt, áferð og svo framvegis, sem leiðir til þess að þau þreytast fyrr í erilsömu umhverfi. Aukin þreyta leiðir svo til erfiðleika við einbeitingu, samskipti og annað sem daglegt amstur krefst af skólabarni.
Vegna þessa misræmis milli umhverfis og þarfa einhverfra er eindregið hvatt til þess að aðlaga rýmið að börnunum, annað hvort með því sem væri auðvitað best – bæði fyrir þau einhverfu og allan skólann í heild – að draga úr skynáreiti almennt. Sé þess ekki kostur þarf að bjóða upp á athvarf til að flýja skynáreitið, eða þá sækja í umhverfi sem róar taugakerfið. Þessi rými eru á ensku kölluð „sensory rooms“ og eru gjarnan þannig útbúin að geta ýmist virkað róandi eða örvandi. Róandi rými eru með mildri lýsingu eða jafnvel myrkri, góðu næði frá hávaða, mjúkum húsgögnum og öðrum úrræðum til að kyrra hugann. Örvandi rými bjóða hins vegar upp á fjölbreytta lýsingu á borð við lava-lampa eða lampa með loftbólum og ólíkum litum, húsgögn sem hægt er að snúa sér í eða rugga og tæki til að örva skynfærin.
Það heyrir því miður til algjörra undantekninga að skynrými séu í boði í íslenskum skólum. Hingað til hef ég bara frétt af einu slíku á Akranesi, þó svo ég hafi ekki séð það sjálf. Oft er bent á bókasöfnin sem athvarf, en þau eru þó í grunninn ætluð til annars.
Forvörn í stað refsingar
Af lestri reglna um gult herbergi í Skarðshlíðarskóla má glöggt sjá að þar er um viðbragð við ástandi að ræða frekar en forvörn. Dvöl í herberginu er afleiðing óæskilegrar hegðunar og henni fylgja ákveðnar refsingar á borð við missi list- og verkgreinatíma, frímínútna og íþrótta. Starfsmenn sem fylgja nemandi í gula herbergið mega ekki spjalla en er bent á að hafa með sér verkefni til að „sýnast uppteknir“, gæta að velferð barnsins en þó „gæta þess að nemandi fái eins litla jákvæða styrkingu í þessum aðstæðum og hægt er“.
Þessi nálgun er mjög svo af gamla skólanum, þó svo hún byggi á glænýjum verklagsreglum. Vinnubrögðin lykta af atferlismótun þar sem fyrst og fremst er horft á hegðun barns og reynt að hafa áhrif á hana með mótandi aðgerðum og refsingum.
Horft frá sjónarhorni einhverfra, sem eru þó auðvitað ekki eini markhópur verklagsreglna um gul herbergi, er þessi nálgun afleit. Það eitt að barn sé komið í þær aðstæður að sýna af sér hegðun sem er talin ógnandi bendir til þess að líðan þess í skólanum sé slæm. Hegðun er nefnilega tjáning á líðan, en ekki afmarkað fyrirbæri. Að bregðast við hegðunin með refsingum er því viðleitni til að stýra afleiðingum frekar en að huga að orsökum vandans.
Skynrými sem börn geta leitað í til að erill og áreiti skóladagsins verði þeim ekki um megn eru hins vegar forvarnartæki og geta sem slík orðið til þess að hin „refsiverða“ hegðun kemur síður fram.
Okkur hjá Einhverfusamtökunum þætti því mjög til bóta að þeir skólar sem um þessar mundir svara spurningum Umboðsmanns Alþingis um gul eða rauð herbergi, sem notuð eru til að einangra nemendur frá félögum sínum meðan þeir „vinna sig aftur inn í bekk“, myndu hugleiða að breyta hugmyndafræðinni á bak við nýtingu fermetranna sem um ræðir.
Afar vel færi á því að innrétta í staðinn skynrými sem róandi úrræði fyrir nemendur sem þau gætu nýtt að eigin frumkvæði og eftir eigin þörfum til að öðlast betri styrk til að takast á við krefjandi umhverfi skólans. Slík rými, séu þau vel úr garði gerð, hafa auk þess þá kosti að veita hvetjandi örvun og styrkingu til náms og góðrar líðanar.
Það vill svo vel til að forgangsverkefni mitt þennan veturinn í fræðslustarfinu er einmitt að hvetja til innréttingar á skynrýmum í opinberu húsnæði. Ég kem því gjarnan í heimsókn til skólanna og fræðsluskrifstofa til að kynna þessa hugmyndafræði og ráðleggja með hönnun og útbúnað.
Grein eftir Guðlaugu Svölu Kristjánsdóttur, birt í fréttablaðinu 21.10.2021 Fréttablaðið
Höfundur er verkefnastjóri fræðslu hjá Einhverfusamtökunum.