Einhverfusamtökin auglýsa nú eftir áhugasömum sjálfboðaliðum í tímabundna vinnuhópa sem eiga að útfæra þýðingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um Réttindi Fatlaðs Fólks (SRFF) í tilviki einhverfu. Hver hópur ákveður nánar innbyrðis hvernig innra starf hópsins verður útfært, eins og hvenær hann fundar og annað nánara skipulag. Byrjað verður á þremur málefnum og tekur hver hópur eitt þeirra. Í þessari umferð verður það aðgengi, atvinna, og menntun.
Hver hópur mun taka við gögnum sem skrifstofa samtakanna mun útvega og skila svo til baka afurð um hvaða þýðingu SRFF hefur í tilviki einhverfu innan þess málefnis. Áætlað er að hóparnir hittist formlega gegnum fjarfundarbúnað í fimm skipti, einu sinni í mánuði, og ljúki störfum í maí eða júní 2024. Þó vinnan snerti á alþjóðlegum samningi er lögfræðikunnátta ekki nauðsynleg. Búist er við að hver þátttakandi muni nýta í starfi hópsins reynslu sína af hindrunum vegna eigin einhverfu og/eða sem aðstandandi.
Þau sem hafa áhuga mega senda neðangreindar upplýsingar til skrifstofu samtakanna með tölvupósti á einhverfa@einhverfa.is fyrir lok 10. janúar 2024, eða koma henni til skrifstofu Einhverfusamtakanna með öðrum hætti fyrir lok þess dags. Fyrirspurnir um ferlið og annað tengt hópunum má einnig senda á sama netfang eða með því að hringja í síma 562-1590.
* Nafn viðkomandi
* Kennitala
* Heimilisfang
* Símanúmer (ef við á)
* Netfang (ef við á)
* Hvaða hópi viðkomandi sækist eftir setu í
* Almenna kynningu um viðkomandi (að hámarki eina A4 bls) þar sem lýst er áhuga viðkomandi á sviði hópsins, af hverju viðkomandi ætti að vera valinn, og þeirri þekkingu/reynslu sem viðkomandi býr yfir sem gæti gagnast í starfi hópsins.
Þau sem eru á einhverfurófinu eru sérstaklega hvött til þess að bjóða sig fram.