Fögnum alþjóðlegum degi einhverfu 2. apríl með öllum regnbogans litum.

Í tilefni af alþjóðlegum degi einhverfu 2. apríl, fögnum við fjölbreytileika einhverfurófsins með öllum regnbogans litum. Einhverft fólk er allskonar, rétt eins og annað fólk og hefur einhverfusamfélagið valið sér eilífðarmerkið í regnbogalitunum, til að tákna óendanlega fjölbreytni hópsins.  

Ef skólar vilja nýta daginn til fræðslu þá er til dæmis hægt að sýna myndbandið Frábærir hlutir gerast þar sem einhverfa er útskýrð í teiknimynd.  Hægt er að velja tungumál og texta og hentar myndbandið því einnig börnum sem eru ekki íslenskumælandi.

Helgina 5.-6. apríl standa Einhverfusamtökin fyrir listsýningu á Háaleitisbraut 13, Reykjavík. Þar mun einhverft listafólk sýna verk sín og flytja tónlist, ljóð o.fl. Þetta er fjórða árið í röð sem við stöndum fyrir slíkri sýningu og hefur mikil ánægja verið með framtakið. Um 300 manns mættu á sýninguna í fyrra. Þetta er gott tækifæri fyrir fólk að koma og kynna sér starfsemina, setjast niður með kaffibolla og spjalla.

Frítt inn og allir velkomnir.