Fræðsluátak

Brýnt er að efla fræðslu um einhverfu í samfélaginu

Síðast liðið haust hófst undirbúningur fræðsluátaks á vegum Einhverfusamtakanna. Ætlunin er að hleypa átakinu af stokkunum í apríl 2016. Tilgangur verkefnisins er að fræða fagfólk og almenning um einhverfu, bæta þekkingu og stuðla þannig að auknum skilningi í samfélaginu. Í fyrsta áfanga verður sjónum beint að einhverfum börnum og unglingum. Markmiðið er að ná til kennara, foreldra og nemenda með efni á íslensku sem verður aðgengilegt á netinu.

Mikilvægt er að vekja athygli á því hversu margbreytileg einhverfan er allt eftir einstaklingum, aldursskeiðum og aðstæðum. Börn og unglingar eyða stórum hluta dagsins í skólanum. Það getur skipt sköpum fyrir líðan einhverfra barna og árangur þeirra í námi að umhverfið sé styðjandi og ýti undir það að þau nýti styrkleika sína og áhugasvið. Við köllum það einhverfuvænt umhverfi. Forsenda þess að hægt sé að skapa slíka umgjörð er að kennarar og aðrir sem koma að málum einhverfra nemenda hafi skilning á fjölbreyttum þörfum þeirra og noti viðurkenndar aðferðir til að mæta þeim.

Stjórn Einhverfusamtakanna réði til sín Þóru Leósdóttur iðjuþjálfa til að stýra fræðsluátakinu. Með henni í verkefnishópnum eru: Ásta Birna Ólafsdóttir, Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, Jarþrúður Þórhallsdóttir og Sigrún Birgisdóttir.