Fréttatilkynning frá stjórn Einhverfusamtakanna vegna skólamála einhverfra barna

                                                                                                                Reykjavík, 2. október 2024


Stjórn Einhverfusamtakanna sendir frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:


Neyðarástand í skólamálum einhverfra barna.
Í fréttum í september var fjallað um 11 börn sem var synjað um inngöngu í Klettaskóla og var m.a. viðtal við móður einhverfs drengs.

Í ljósi þess vilja Einhverfusamtökin vekja athygli á því neyðarástandi sem ríkir í skólamálum einhverfra barna. Ár eftir ár hafa verið slegin met hjá Reykjavíkurborg í að synja einhverfum börnum um skólavist í sérhæfðri einhverfudeild. Undanfarin ár hefur 30-38 einhverfum börnum verið synjað um skólavist í sérhæfðum einhverfudeildum vegna plássleysis.

Þetta eru eingöngu þær umsóknir sem uppfylla öll þau þröngu skilyrði sem sett eru fyrir inngöngu í svo sérhæfða deild. Allt eru þetta börn sem teljast í mikill þörf fyrir sérhæfða kennslu en er synjað vegna plássleysis.

Þessi börn fara því flest í almenna skóla og treysta foreldrar á að þörfum þeirra sé mætt. Því miður er það ekki raunin. Mörg þessara barna búa enn nú í október við að skóladagur þeirra sé skertur vegna skorts á stuðning. Í öðrum tilfellum er enginn sérstakur stuðningur ætlaður börnunum heldur eru þau send á milli aðila innan skóladagsins, eftir hentisemi skólans hverju sinni. Þetta veldur einhverfum börnum miklu öryggisleysi og getur ógnað bæði öryggi þeirra og velferð enda þurfa þau fyrirsjáanleika og utanumhald.

Ár eftir ár hefur Reykjavíkurborg eingöngu boðið upp á 8 pláss í sérhæfðum einhverfudeildum, fyrir 1-10. bekk, og því er ekki einu sinni um að ræða eitt barn sem kemst inn í hvern árgang ár hvert. Þessum plássum hefur ekki fjölgað í fjölda ára né hefur verið brugðist við neyðarópum foreldra einhverfra barna, sem tala fyrir daufum eyrum ráðamanna.

Umboðsmaður barna birti nýverið tölur þar sem fram kemur að áætlaður biðtími eftir greiningu, vegna gruns um einhverfu sé nærri þrjú ár og að yfir 600 börn séu á biðlista. Ráðamönnum hefur lengi verið ljóst hve mikið þörfin hefur aukist fyrir sérhæfð úrræði og fullan stuðning fyrir einhverf börn án þess að bregðast við. Því er ljóst að þörfin fyrir að einhverfum börnum sé mætt mun aðeins aukast.

Foreldrar einhverfra barna gera þá einföldu og sjálfsögðu kröfu að réttindi barna þeirra, öryggi og velferð sé tryggð og þörfum þeirra sé mætt eins og annarra ófatlaðra barna.

Við skorum á ráðamenn bæði ríki og sveitarfélög að bregðast án tafar við því neyðarástandi sem ríkir í skólamálum einhverfra barna þar sem réttindi þeirra, velferð og öryggi sé tryggt til jafns við önnur börn.

Stjórn Einhverfusamtakanna