Fréttir frá aðalfundi Einhverfusamtakanna.

Þann 2. júní var aðalfundur Einhverfusamtakanna haldinn. Lagabreytingartillaga barst frá einum félagsmanni og snérist hún um fundarboðun á aðalfund. Kosið var um tillöguna á fundinum og hún samþykkt. Þarf því ekki lengur að senda félagsmönnum fundarboðið í bréfapósti með tilheyrandi kostnaði.

7. grein mun hljóða: 
Aðalfundur félagsins skal haldinn í mars eða aprílmánuði ár hvert.  Stjórn félagsins skal boða til hans með tilkynningu á heimasíðu og facebook síðu samtakanna með minnst 10 daga fyrirvara. Tilkynningu skal einnig senda í tölvupósti til þeirra félagsmanna sem eru með skráð tölvupóstfang hjá samtökunum. Í fundarboði skal þess sérstaklega getið ef fram hafa komið tillögur til breytinga á lögum þessum.
 
Dagskrá aðalfundar skal vera:
a)       Kosning fundarstjóra og fundarritara.
b)      Skýrsla stjórnar um störf félagsins næst liðið starfsár.
c)       Skýrslur nefnda, starfshópa og fulltrúa á vegum félagsins um störf unnin næst liðið starfsár.
d)      Ársreikningur næst liðins starfsárs lagður fram og borinn upp til samþykktar.
e)       Breytingar á lögum félagsins.
f)       Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár.
g)      Kjör stjórnar og skoðunarmanna ársreikninga.
Önnur mál.
 

Kosið var um sæti formanns, eitt sæti aðalmanns og eitt sæti varamanns. Inga Aronsdóttir gaf kost á sér sem formaður til tveggja ára og var það samþykkt samhljóða. Svavar Kjarrval var endurkjörinn sem aðalmaður til tveggja ára og Aðalheiður Ármann var endurkjörin sem varamaður til tveggja ára. Engin mótframboð bárust. 

Olgeir Jón Þórisson lét af störfum sem formaður samtakanna og þökkum við honum kærlega fyrir samstarfið.

Inga Aronsdóttir móðir þriggja einhverfra barna en ásamt því hefur hún starfað í leikskólum í Kópavogi síðustu tuttugu árin, bæði sem stuðningur fyrir börn með sérþarfir og sem deildarstjóri. Hún hóf nýverið störf hjá Sjónarhóli ráðgjafarmiðstöð þar sem hún nýtir sína þekkingu og reynslu til stuðnings við foreldra barna með sérþarfir. Ingu hlakkar til að takast á við nýjar áskoranir sem fylgja formennsku Einhverfusamtakanna og brennur fyrir því að bæta kjör einhverfra.

Hér má sjá lög samtakanna eftir breytingar.

Hér má finna ársskýrslu stjórnar sem flutt var á fundinum.