Fréttir frá aðalfundi Einhverfusamtakanna.

Þann 25. apríl var aðalfundur Einhverfusamtakanna haldinn. Lagabreytingartillögur höfðu borist fyrir fundinn frá stjórn samtakanna og snerust þær að mestu um að aðlaga lög samtakanna að lögum um félög til almannaheilla, lög nr. 110 25. júní 2021. Taldi stjórn mikilvægt að uppfylla skilyrði þessara laga svo hægt væri að breyta skráningu samtakanna í samræmi við þau, því ríki og sveitarfélög geta sett það skilyrði fyrir styrkveitingum að félag uppfylli skilyrði laganna. Einnig á almenningur eingöngu rétt á skattaafslætti af veittum styrkjum til félagasamtaka sem eru skráð félög til almannaheilla. Farið var yfir lögin í heild og urðu töluverðar umræður um þau. Að lokum voru lagabreytingartillögur stjórnar samþykktar með smávægilegum breytingum.

Hér er hlekkur á nýjar samþykktir Einhverfusamtakanna

Dagskrá aðalfundar var að öðru leyti hefðbundin. Skýrsla stjórnar lesin upp, farið yfir ársreikninga og þeir samþykktir og svo kom að stjórnarkjöri. Formaður stjórnar ákvað að láta af störfum á miðju kjörtímabili og var því kosið í formannssætið til eins árs. Svavar Kjarrval var einn í framboði og var því sjálfkjörinn. Þetta er merkur áfangi í sögu Einhverfusamtakanna því þetta er í fyrsta skipti sem einhverfur einstaklingur býður sig fram til formannssetu og er kjörinn í embættið.  Kosið var í þrjú sæti aðalmanna til tveggja ára, eitt sæti aðalmanns til eins árs og eitt sæti varamanns til tveggja ára.

Nýja stjórn skipa:
Svavar Kjarrval formaður.
Aðrir stjórnarmenn:
Agnes Braga Bergsdóttir, Laufey Eyþórsdóttir, Sólveig Sigurvinsdóttir og Hildur Valgerður Heimisdóttir.
Varamenn:
Aðalheiður Dögg Aðalheiðardóttir og Óskar Guðmundsson.
 

Teknar voru til afgreiðslu tvær ályktanir frá stjórn sem aðalfundur samþykkti.

Ályktanir aðalfundar Einhverfusamtakanna 25. apríl 2022:

Geðheilbrigðisþjónusta fyrir fólk á einhverfurófi og fólk með þroskahömlun.

Einhverfusamtökin skora á stjórnvöld að tryggja einhverfu fólki og fólki með þroskahömlun viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu sem tekur tillit til þarfa þess. Eins og staðan er í dag er þessum hópum ítrekað vísað frá geðheilsuteymum heilsugæslunnar á þeirri forsendu að ekki sé næg þekking til staðar til að sinna þeim. Mikilvægt er að byggja upp þá þekkingu svo fólk geti sótt þjónustu við hæfi í sínu nærumhverfi.

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir fólk á einhverfurófi og fólk með þroskahömlun.

Einhverfusamtökin skora á stjórnvöld að hefja nú þegar vinnu við stofnun þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir einhverft fólk og fólk með þroskahömlun. Þörf er á ráðgjöf fyrir fólk á einhverfurófi, aðstandendur, atvinnurekendur, skóla og heilbrigðiskerfið. Eins og staðan er í dag er mjög erfitt fyrir fullorðið einhverft fólk að fá ráðgjöf og stuðning því þekking á þörfum hópsins er brotakennd hjá félagsþjónustunni og í heilbrigðiskerfinu. Með stofnun þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar væri hægt að byggja upp þekkingateymi um þau málefni sem snúa að hópnum og gætu þau veitt stuðning og fræðslu inn í almennu úrræðin, svo sem geðheilsuteymin, framhaldsskólana eða út í atvinnulífið eftir þörfum. Fámenni þjóðarinnar hamlar því að hægt sé að byggja upp þekkingu um allt land og á öllum þjónustustöðvum. Með þekkingarteymum væri hægt að koma til aðstoðar þegar þörf væri á sérfræðiráðgjöf.

Hér má finna ársskýrslu stjórnar sem flutt var á fundinum.