Greining á geðheilbrigðisþjónustu fyrir fullorðna einhverfa og tillögur til úrbóta

Geðheilbrigðisþjónusta sérhæfð að einhverfu er lítil í dag. Geðheilsuteymi höfuðborgarsvæðisins áætla að um 25% einstaklinga í þeirra þjónustu sé með einhverfu. Geðheilsuteymin telja sig þó ekki hafa þá þekkingu og sérhæfingu sem þarf til að veita einhverfum árangursríka meðferð. Einhverfir þurfa almennt lengri tíma og meðferð sem aðlöguð er að einkennum einhverfunnar. Langtímaeftirfylgd er lítil og þjónusta er brotakennd fyrir þennan hóp. Virk og Janus sinna hópi einhverfra sem hafa lent í erfiðleikum í lífi og starfi. Greining á einhverfu er mikilvæg fyrir einstaklingana, til að auka skilning þeirra á sjálfum sér og sem rök fyrir geðheilbrigðis- og félagsþjónustu/sértækari velferðarþjónustu og starfsendurhæfingu.

Takmarkaður aðgangur er að greiningu á einhverfu fullorðinna. SÓL, sjálfstætt starfandi sálfræði- og læknisþjónusta gerir greiningar til 25 ára aldurs og geðsvið Landspítala þegar einstaklingur er í þjónustu þar en með flókinn geðvanda að auki. Sjálfstætt starfandi einhverfuráðgjafar gera um 230 einhverfuathuganir á ári, en þær teljast ekki fullgildar greiningar og því ekki teknar gildar í félagsþjónustu.

Geðheilbrigðisstarfsfólk skortir oft þekkingu á einhverfu sem veldur því að mismunagreining er ekki framkvæmd og einhverfir einstaklingar fá einungis geðgreiningu en ekki greiningu um einhverfu. Þetta leiðir til þess að meðferð tekur ekki mið af þörfum einhverfra og getur því verið ómarkviss. Slíkt getur haft áhrif á lengd þjónustu og innlagnir, sem aftur eykur kostnað heilbrigðiskerfisins. Vísbendingar eru um að með því að mæta einhverfum á réttum tíma og á viðeigandi hátt geti dregið úr því að einhverfir þrói með sér geðrænar áskoranir.

Á rýnifundi með Einhverfusamtökunum sögðu einhverfir það upplifun sína að vera Kerfisvilla – á biðlista. Hindranir í aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu eru margar, t.d. þekkingarleysi fagfólks, mikill kostnaður við greiningu hjá SÓL, frávísun í geðheilsuteymum vegna einhverfunnar og skipting ábyrgðar á málaflokknum milli ráðuneyta er til trafala. Besta hjálpin töldu þau vera að kynnast öðru einhverfu fólki. Álykta má að einhverfir séu jaðarsettur hópur í íslensku samfélagi.

Byggt á ferlagreiningarvinnu leggur verkefnahópurinn fram eftirfarandi tillögur til úrbóta:

• Samstarf heilbrigðis-, félags- og vinnumarkaðs- og mennta- og barnamálaráðuneytis um að bæta þjónustu við einhverfa.

• Opna þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa – Setrið. Meginverkefni Setursins verði; Greining á einhverfu, fræðsla og ráðgjöf fyrir einhverfa og aðstandendur þeirra og fræðsla, stuðningur og ráðgjöf við aðra sem veita þjónustu við einhverfa.

• Geðheilbrigðisþjónusta fyrir einhverfa til framtíðar verði þróuð og útfærð á öllum þjónustustigum til að mæta einhverfum.

• Einhverfumiðuð nálgun verði í allri þjónustu við einhverfa.

• Vitundarvakning um einhverfu verði til þess að auka þekkingu og skilning á einhverfu og þeim verði mætt af virðingu alls staðar.

• Málastjóri í félagsþjónustu er mikilvægur fyrir einhverfa til að styðja þá til virkni.

• Breytingar á lögum og reglugerðum í þágu einhverfra, til að allir einhverfir fái þjónusta við hæfi. Þannig þarf að setja allar sjúkdómsgreiningar einhverfu í lög og reglur og samræma greiðsluþátttöku og fleira.

• Aðrar tillögur, þ.e. einhverfir hafi ákveðinn tengilið í heilsugæslu, uppfærsla á sjúkdómsgreiningakerfinu úr ICD-10 í ICD-11 og betri sýn og yfirlit yfir stöðu einhverfra í samfélaginu.

Hér er slóð á skýrsluna í heild: https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Skyrsla_ferlagreining_ge%c3%b0heilbr_einhverfir18%20og%20eldri_loka%c3%batg%c3%a1fa_nov24.pdf