Leonardo menntaáætlunáætlun Evrópusambandsins hefur nýverið veitt styrk til samstarfsverkefnis, sem felur í sér þýðingu, staðfærslu og frekari þróun á kennsluefni sem byggir á hagnýtri atfelisgreiningu og nýtist við atferlisþjálfun barna með röskun á einhverfurófi.
Kennsluefnið var upphaflega þróað á Norður-Írlandi og nefnist Simple Steps á frummálinu. Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins er aðili að verkefninu og verkefnisstjóri hér á landi er Sigríður Lóa Jónsdóttir sálfæðingur.
Um er að ræða margmiðlunar efni þar sem upplýsinga um einhverfu og aðferðir sem byggja á hagnýtri atferlisgreiningu er miðlað í texta og myndmáli. Efnið felur meðal annars í sér upplýsingar og leiðbeiningar í lítilli bók, upptökur og hreyfimyndir. Fjallað er á einfaldan og aðgengilegan hátt um þau lögmál sem liggja til grundvallar hegðun, hvernig megi nýta þau til þess að byggja upp nýja færni og að takast á við krefjandi hegðun.
Markmið efnisins er að veita foreldrum og þjálfurum barna með einhverfu haldgóðar upplýsingar sem hjálpa til við að skilja þau vísindi sem liggja til grundvallar þjálfunni og nýtast við að byggja upp og taka þátt í þjálfun barns með einhverfu í samvinnu við ráðgjafa með sérhæfingu á þessu sviði. Efnið þykir einstaklega foreldravænt, en það var upphaflega þróað í samstarfi við foreldra barna með einhverfu. Efnið nýtist einnig við þjálfun barna sem eru með önnur frávik í þroska.
Simple Steps efnið hefur verið gefið út í notendavænni öskju auk þess sem hægt er að kaupa aðgang að ensku útgáfunni á netinu fyrir hóflegt verð. Netútgáfur á öðrum tungumálum verður hægt að nálgast innan skamms, en íslenska útgáfan kemur á markað í ársbyrjun 2014. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni: www.simplestepsautism.com. Þess má geta að fyrr á þessu ári fékk verkefnið viðurkenningu frá Leonardo sem „Project of Excellence“.
Margar rannsóknir eru fyrirliggjandi sem sýna að aðferðir sem byggja á hagnýtri atferlisgreiningu eru árangursríkar við kennslu og þjálfun barna með einhverfu og þá sérstaklega þegar um er að ræða yfirgripsmikla áætlun, sem í daglegu tali hér á landi er nefnd heildstæð atferlisþjálfun. Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hefur um árabil boðið foreldrum og fagfólki upp á námskeið á þessu sviði, en þýðing og staðfærsla Simple Steps efnisins mun verða mikil lyftistöng fyrir fræðslustarfið og gera þekkinguna aðgengilegri.