Matarhátíðin Reykjavík Food Festival, Matarhátíð Reykjavíkur, verður haldin nú á laugardaginn 14. september á Skólavörðustíg frá kl. 14:00-17:00. Hátíðin er nú haldin í áttunda skiptið og hefur hún nú þróast úr því að einblína á beikon og svínakjöt í hátíð þar sem allir geirar matvælaiðnaðarins eru velkomnir. Ágóði af miðasölu hátíðarinnar rennur til góðgerðarmála. Í ár hljóta barnamenningarmiðlun Nýlistasafnsins og Einhverfusamtökin styrki hátíðarinnar.
Yfirskrift hátíðarinnar er Úr flóa að fjalli og alls munu tólf veitingastaður úr borginni raða upp veitingabásum á Skólavörðustíg og bjóða borgarbúum og nærsveitungum upp á kræsingar gegn vægu gjaldi. Verðinu er stillt í hóf en hægt verður að kaupa fjóra miða á 1.500 krónur.
Þeir veitingastaðir sem verða með veitingabása á hátíðinni eru Kol, Sjávargrillið, Matarkjallarinn, Fjárhúsið, Loki, Salka, Krúa Thaí, Block Burgers, Himalayan Spice og Eldur og ís auk tveggja veitingabása bandaríska meistarakokksins Doms Iannarellis frá Iowa.
Lífleg skemmtiatriði verða í boði og lúðraþytur mun óma um Skólavörðustíginn. Vonandi verður veðrið þokkalegt svo allir geti notið dagsins.