Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra birti ágætan pistil í Morgunblaðinu 19. janúar sl. um geðheilbrigðisþjónustu. Meðal þess sem hún nefnir þar eru þær úrbætur sem orðið hafa með tilkomu geðheilsuteymanna og þeirri vinnu sem lögð hefur verið í að draga úr biðlistum vegna ADHD-greininga.
Þessu ber vissulega að fagna. Óhjákvæmilegt er þó að benda á að geðheilsuteymin eru ekki ætluð öllum. Í upplýsingum á heimasíðum geðheilsuteymanna kemur m.a. fram að það sé „frábending“ að vera með þroskaraskanir (einhverfuróf) og er einstaklingum með þær greiningar vísað frá þegar þeir leita eftir þjónustu geðheilsuteymanna. Í þessu er fólgin augljós og alvarleg mismunun á grundvelli fötlunar hvað varðar aðgang að heilbrigðisþjónustu. Slík mismunun fer í bága við íslensk lög og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og fleiri fjölþjóðlega mannréttindasamninga sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að virða og framfylgja.
Í þessu sambandi viljum við einnig vekja athygli heilbrigðisráðherra, félagsmálaráðherra og annarra á að til að fá greiningu vegna einhverfu eða þroskaröskunar þarf fólk sem orðið er eldra en 18 ára að leita til sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Fyrir þær greiningar þarf fólk að greiða háar fjárhæðir. Mjög oft er þar um einstaklinga að ræða sem hafa ekki fjárhagslega burði til að mæta þeim kostnaði. Margvísleg lögbundin þjónusta og réttindi eru þó í raun háð því að slík greining liggi fyrir.
Nú er verið að stofna geðheilsuteymi fyrir fólk með þroskaraskanir og/eða einhverfu. Það teymi á þó eingöngu að sinna þeim hópi sem er í búsetu og þjónustu sveitarfélaganna, samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið.
Við verðum því að beina þessari spurningu til heilbrigðisráðherra og treystum því að hún svari henni fljótt og skýrt:
Hvar leggur ráðherra til að fólk með þroskahömlun og/eða einhverfu, sem ekki er í búsetu og þjónustu sveitarfélaga, fái nauðsynlega geðheilbrigðisþjónustu?
Afar brýnt er að fá svar við þessari spurningu án frekari dráttar þar sem vitað er og viðurkennt að geðraskanir eru algengur fylgifiskur einhverfu.
Höfundar eru formenn Landssamtakanna Þroskahjálpar og Einhverfusamtakanna.