Reykjavíkurmaraþon

Umsjónarfélag einhverfra vill þakka öllum þeim sem komu á einn eða annan hátt að Reykjavíkurmaraþoninu og studdu við félagið með hlaupum, áheitum eða vinnu. Hlauparar voru mjög ánægðir með stuðningshópana sem voru meðfram hlaupabrautinni og hvöttu þá áfram. Félagið kom ótrúlega vel út úr þessu verkefni og safnaðist tæp hálf milljón í áheit, sjá frétt frá RÚV hér fyrir neðan.

Með kveðju, Sigrún Birgisdóttir, skrifstofu Umsjónarfélags einhverfra.

Sjö milljónir til góðgerðamála

Tæpar 7 milljónir söfnuðust til styrktar góðgerðarfélögum í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardag. Opið er fyrir áheit til miðnættis í kvöld og búist er við að upphæðin hækki töluvert. Í fyrra söfnuðust tuttugu milljónir króna.

Eins og undanfarin ár gafst öllum hlaupurum, fyrir utan þátttakendur í Latabæjarhlaupinu, kostur á að hlaupa til góðs, þ.e. að láta heita á sig til styrktar góðgerðarfélagi. 4.332 manns nýttu sér þennan mögulega af þeim 7.400 sem stóð það til boða. Þar af voru 863 hlauparar sem einhver áheit fengu.

Áheitasöfnunin fór hægar af stað en undanfarin ár. Á laugardaginn, hlaupadaginn sjálfan, höfðu safnast 6,7 milljónir. Það er töluvert minna en í fyrra þegar 20 milljónir söfnuðust. Í ár hlupu flestir til styrktar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna og fær félagið 884 þúsund krónur í sinn hlut. Næstvinsælast var Umsjónarfélag einhverfra með tæpa hálfa milljón og svo Göngum saman, félag sem styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini með 331 þúsund.

Opið er fyrir áheit til miðnættis í kvöld, svo búist er við að heildarupphæðin hækki töluvert. Þá eru áheit sumra fyrirtækja á starfsmenn sína og maka þeirra ekki talin með. Til dæmis hlupu 69 starfsmenn Össurar hf. og makar til styrktar Íþróttasambandi fatlaðra og söfnuðu 323.500 krónum