Gleði, jákvæðni og ævintýri lýsa vel þeirri starfsemi sem fram fer í Reykjadal, en þar rekur Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra sumar- og helgardvalarstað fyrir fötluð börn og ungmenni.
Árlega dveljast í Reykjadal um 250 börn á aldrinum 8-21 árs. Börnin koma alls staðar að af landinu.
Frá maílokum fram í miðjan ágúst er boðið upp á sumardvöl og yfir vetrarmánuðina er boðið upp á helgardvöl. Hvert barn getur dvalið í sex daga eða 13 daga yfir sumartímann og tvær helgar yfir vetrartímann.
Í Reykjadal eiga börnin ævintýradaga í frábæru umhverfi. Starfið er fjölbreytt og skemmtilegt og lýsa einkunnarorðin gleði - jákvæðni - ævintýri dvölinni vel. Lögð er áhersla á íþróttir og leiki, útivist og sköpun. Sundlaug og heitur pottur eru á staðnum auk hesta sem gestir Reykjadals hafa aðgang að.
Sækja þarf um sumardvöl fyrir 1. febrúar ár hvert og vetrardvöl fyrir 1. september. Hér er slóð á síðu Reykjadals.