Sérfræðingarnir

Sköpum vinnumarkað fyrir alla Leonardo menntaáætlun Evrópusambandsins hefur veitt Sérfræðingarnir ses., Þjónustumiðstöð Laugardals og og Háaleitis og fjórum erlendum samstarfsaðilum styrk sem hljóðar upp á 200.000 Evrur. Styrkurinn verður nýttur til að flytja þekkingu frá Specialisterne Ses. í Danmörku til systurfyrirtækja á Íslandi, Skotlandi og Þýskalandi. Specialisterne ses. í Danmörku hafa vakið heimsathygli fyrir aðferðir sínar við að meta og þjálfa einstaklinga á einhverfurófi og útvega þeim síðan verkefni við hugbúnaðarprófanir og aðra nákvæmnisvinnu í stórum fyrirtækjum eins og TDC, Microsoft, Oracle, Cisco og Lego. Sérfræðingarnir ses. á Íslandi er sjálfseignarstofnun sem var stofnuð af Umsjónarfélagi einhverfra og einstaklingum sem hafa áhuga á að bæta atvinnutækifæri einstaklinga á einhverfurófi á Íslandi. Markmið er að skapa atvinnutækifæri, auka skilning og faglegan stuðning í atvinnulífinu við einstaklinga á einhverfurófi. Með því að ná þessum markmiðum aukast lífsgæði einstaklinga, upplýsingatækniiðnaðurinn fær öfluga starfsmenn og útgjöld ríkis og sveitafélaga lækka. Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis er ein af 6 Þjónustumiðstöðvum Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis er þekkingarstöð í málefnum fatlaðs fólks og starfar undir kjörorðinu ,,samfélag fyrir alla‘‘. Þjónustumiðstöðin leiðir þekkingarverkefnið sem styrkurinn fæst út á. Þjónustumiðstöðin gegnir jafnframt því hlutverki að tryggja gæða- og þekkingarviðmið sem ætlað er að stuðla að og ýta undir yfirfærslu þeirrar þekkingar sem ávinnst með verkefninu á aðra þætti í félagslegu umhverfi með sérstakri áherslu á þróun atvinnutilboða fyrir fatlað fólk á almennum vinnumarkaði. Styrkur Leonardo menntaáætlunarinnar flýtir fyrir flutningi á þekkingu frá Danmörku til Íslands, Skotlands og Þýskalands. Sérfræðingarnir ses. stefna á þjálfun fyrstu einstaklinganna hérlendis strax í upphafi árs 2011. Stefnt er á að 14 – 18 einstaklingar hljóti þjálfun árlega og komist á almennan vinnumarkað. Á meðfylgjandi mynd frá vinstri til hægri eru: Birgir Jóhannsson, verkefnisstjóri, Aðalbjörg Traustadóttir framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis, Ágúst H. Ingþórsson forstöðumaður rannskóknaþjónustu Háskóla Íslands og Landskrifstofu, LME, Hjörtur Grétarsson stjórnarformaður Sérfræðingarnir ses. Þórdís Linda Guðmundsdóttir deildarstjóri Þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis.