Rætt við Einhverfusamtökin um rannsóknir á einhverfu
Íslensk erfðagreining ætlar að hefja viðræður við Einhverfusamtökin um hvernig best sé að nálgast rannsóknir á einhverfu með tilliti til vitundarvakningar í samfélaginu sem orðið hefur á undanförnum árum. Frá árinu 2014 hafa verið send út bréf frá ÍE vegna rannsóknar á einhverfu og þegar það var sent út nýverið gerðu margir úr samfélagi einhverfra og aðstandenda þeirra athugasemdir við orðalag og nálgun í bréfinu sem er nánast orðrétt eins og það var árið 2014 og samræmist ekki nýjustu þekkingu.
Fólk á vegum Einhverfusamtakanna og Íslenskrar erfðagreiningar hittist á fundi 18. febrúar, þar sem ákveðið var að rætt yrði við Einhverfusamtökin um þessa rannsókn og rannsóknir á einhverfu framvegis og leitað eftir sjónarmiðum einhverfra, bæði varðandi þá rannsókn sem um ræðir og aðrar sem kunna að fara af stað síðar. Einnig var ákveðið að Íslensk erfðagreining standi fyrir fræðslufundi um einhverfu á forsendum einhverfs fólks og þeirrar vitundarvakningar sem orðið hefur.
Íslensk erfðagreining biðst velvirðingar á því að hafa sent frá sér úrelt erindi, til einhverfra og aðstandenda þeirra, með orðalagi sem gæti ýtt undir fordóma. Tilgangur rannsókna ÍE er einungis að afla þekkingar a mannlegri fjölbreytni í þágu vísinda og það er einlæg ósk fyrirtækisins að einhverfir sem og aðrir í samfélaginu taki þátt í því verkefni með opnum hug.