Frábærir hlutir gerast! Nýtt alþjóðlegt fræðsluefni um einhverfu komið á íslensku.

Nú er komin út íslensk útgáfa af myndbandinu “Amazing Things Happen”, sem hefur farið sigurför um heiminn og verið tilnefnt til fjölda alþjóðlegra verðlauna. Þetta er stutt teiknimynd sem er framleidd af Alex Amilines með aðkomu eins færasta einhverfuráðgjafa heims Tony Attwood.

Myndbandið var talsett á íslensku fyrir stuttu og er núna öllum aðgengilegt. Það skýrir á einfaldan hátt fyrir börnum og fullorðnum hvers eðlis einhverfan er og hvernig hún getur birst okkur í daglegu lífi. Hvatt er til skilnings, nærgætni, tíma og vináttu sem allir þurfa. Það er aðgengilegt öllum á síðunni amazingthingshappen.tv  og hér fyrir neðan. Hægt er að velja íslenskan texta í stillihnapp neðst í hægra horni myndar.