Nýtt merki Umsjónarfélags einhverfra

Á síðasta aðalfundi var samþykkt að láta hanna nýtt merki fyrir Umsjónarfélagið. Leitað var til þriggja aðila um hönnunina og valdi stjórn félagsins merki Jóns Ara Helgasonar. Það merki hefur nú verið tekið í notkun eins og sjá má á heimasíðunni.


Lýsing hönnuðar á merkinu er eftirfarandi:

Merkið var hannað til að vera í senn nútímalegt en um leið laust við allt prjál og tískustrauma þannig að það standist tímanns tönn og nýtist félaginu vel. Einfaldleiki merkisins gerir það að verkum að auðvelt er að færa það yfir á alla miðla hvort sem það er fyrir prentun, vef eða t.d. útskornar merkingar.

Ysti hringurinn stendur fyrir það fagfólk sem kemur að úrræðum og hjálp fyrir einstaklinga á einhverfurófinu. Hringurinn þar fyrir innan táknar þá sem standa einhverfum enn nær eða aðstandendur. Innst eru svo þeir einstaklingar sem eru með greiningu á einhverfurófinu.

Útúr merkinu má lesa stafinn „e" sem stendur fyrir einhverfa og hjálpar til við minni merkisins. Í merkinu er sólarupprás. Sólin er tákn fyrir von, bjartsýni og líf og er ætlað að endurspegla starf félagsins. Hringformin í merkinu eru auk þess tákngervingur fyrir greiningarþætti einhverfu eins og áráttukennda hegðun og félagslegahegðun og tjáningu.

Litir hins nýja merkis eru bjartir og fullir af lífi. Gulur er gjarnan tákn lífsins og gleði. Blár er tákn verndar og trausts. Litirnir eru andstæðir litir í litrófinu og verða af þeim sökum sterkari saman.