Stjórn Umsjónarfélags einhverfra lýsir furðu sinni og áhyggjum vegna dóms í héraðsdómi 14. mars 2008 í máli kennara gegn skóla og nemanda. Félagið harmar jafnframt slysið sem er þar til umfjöllunar.
Dómurinn vekur upp ótal spurningar um ábyrgð og réttarstöðu allra er að málinu koma, þekkingu á Aspergersheilkenni, einhverfu og vinnubrögðum við að leiða mál sem þessi til lykta. Hver er ábyrgð vinnuveitenda á að tryggja starfsumhverfi s.s. húsnæði, viðhlýtandi mönnun og næga þekkingu á viðkomandi fötlun? Hve langt nær ábyrgð foreldra á gerðum barna sinna? Hvernig eiga aðstandendur fatlaðra að haga sínum tryggingarmálum? Þurfa fatlaðir aðrar tryggingar? Er ekki rétt að þeir sem taka að sér að vinna með börnin séu ábyrgir og með viðeigandi starfsábyrðartryggingar? Hve langt nær ábyrgð starfsfólks? Starfsfólk sem vinnur með fatlaða og ófatlaða einstaklinga verður að hafa tryggt umhverfi. Hver er ábyrgð lögmanna á að draga fram fullnægjandi þekkingu á viðfangsefninu? Af lestri á umræddum dómi virðist sérfræðiþekking á Aspergersheilkennum ekki hafa verið til staðar.
Umsjónarfélagið kallar eftir frekari umræðu um þessi málefni og mun í apríl halda félagsfund um réttindi og skyldur við svona uppákomur.
Reykjavík 18. mars 2008
F.h. stjórnar Umsjónafélags einhverfra,
Hjörtur Grétarsson